Hveragerðiskirkja

Hveragerðiskirkja stendur á Sandhóli og gnæfir tignarleg yfir bæinn. Jörundur Pálsson arkitekt við embætti Húsameistara ríkisins teiknaði kirjuna. Bygging hennar hófst í júlí 1967 og byggingameistari var Jón Guðmundsson í Hveragerði. Heildargólfflötur er 460 m2 og mesta lofthæð er 14 m.
Þann 31. maí 1971 var safnaðarheimili vígt af Sigurbirni Einarssyni, biskupi Íslands og þann 14. maí 1972 var kirkjan sjálf vígð af Sigurði Pálssyni vígslubiskupi.

Skírnarfonturinn er stuðlabergssúla.
Steindur kórgluggi er verk Höllu Haraldsdóttur, glerlistakonu. Stílfærð Kristsmynd er uppistaðan myndarinnar, en litir og form vísa til jarðhita, gufu, blóma og gróanda umhverfisins. Efst tákna stjarna og kross birtu vonar og hinn helga kross, og að Hveragerði er á krossgötum í þjóðbraut. Halla gerði einnig glugga í safnaðarsal.
Krossaumað veggteppi er gert eftir frummynd í Þjóðmynjasafni og sýnir atburði úr Mósebókum. Ofin veggteppi í safnaðarsal eru gjöf frá vinabæ Hveragerðis, Tarp í Slésvík í Þýskalandi.
Bænaljósastjaki og tveir sex ljósa stjakar í kór eru minningargjafir. Gunnsteinn Gíslason, myndlistarmaður hefur hannað alla stjakana.
Pípuorgelið er ítalskt, af Mascionigerð, 17 raddir.
Sunnan við kirkjuna er gott útsýni yfir Hverasvæðið í hjarta bæjarins. Kirkjan er tilvalinn staður til að skoða og upplifa í leiðinni þann frið og kærleik sem ætíð geislar frá guðshúsum.